Ritstörf

Ég byrjaði að skrifa árið 1997 þegar ég frétti af smásagnasamkeppni á vegum Ríkisútvarpsins. Ég sendi inn söguna Sporin, sem er hryllingssaga um útigangsmann í New York, og varð hún ein af þeim sögum sem bar sigur úr bítum. Hún var lesin upp í Ríkisútvarpinu af Hjalta Rögnvaldssyni leikara. Það má hlusta á söguna með að smella á hlekkinn hér að neðan.

Ég hef sent fjöldann allan af sögum í smásagnasamkeppnir og í tímarit og gengið misvel á ritvellinum. En árið 2013 varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vinna Gaddakylfuna fyrir söguna “Góða nótt” sem er um unga konu sem vinnur á kaffihúsi. Hún getur ekki sofið á næturnar þar sem einhver situr um hana.

Rithringur.is hefur verið mér til halds og traust þegar kemur að því að fá umsagnir á sögurnar og gekk ég til liðs við nokkra Rithringsmeðlimi og gáfum við út tvö smásagnasöfn þar sem ég á þrjár sögur. “Þetta var síðasti dagur lífs míns” og “Skuggamyndir”. Bækurnar voru útgefnar af Óðinsauga.

Þó ég skrifi aðallega á íslensku þá hef ég verið að prófa mig áfram í að skrifa sögur á ensku. Ég skrifaði vísindahrollvekjuna “Thirst” sem gerist á Mars í nálægri framtíð og söguna Heat Haze sem ég sendi inn í smásagnasamkeppni sem var með loftlagsbreytingar sem þema og hvernig manneskjan gæti hugsanlega þurft að lifa ef umtalsverðar loftlagsbreytingar ættu sér stað.

Mín fyrsta bók “Konur húsvarðarins”, sem gefin er út af Óðinsauga, mun kom út í júní 2015.

Mín fyrsta barnabók “Litakassinn” kom út í nóvember 2016.

Önnur glæpasaga mín “Umsátur” sem er gefin út af Draumsýn kom út í september 2017.